Ein af þeim opinberu stofnunum sem almenningur ber mikið traust til er Háskóli Íslands. Skólinn leggur áherslu á jafnrétti í starfsemi skólans og hefur það markmið að vera í fararbroddi í jafnréttismálum. Við ákváðum að skrifa þennan pistil um jafnrétti í Háskóla Íslands þar sem við erum báðir miklir áhugamenn um jafnréttismál en Haukur er núverandi nemandi í skólanum og Ragnar brautskráðist árið 2013.
Á heimasíðu HÍ er að finna hagnýtar upplýsingar um jafnréttismál, úrræði og þjónustu sem í boði er fyrir starfsfólk og stúdenta (http://www.hi.is/adalvefur/jafnrettismal ). Stefna skólans er að vinna gegn mismunun og að jafnréttisstarf sé unnið út frá þörfum stúdenta.
Skólinn stendur árlega fyrir svokölluðum Jafnréttisdögum og með því er vonast til að jafnréttismál verði sýnilegri innan háskólans. Fólk kynnist störfum, tækifærum og hugmyndum sem varða jafnréttismál í háskólasamfélaginu og er sjónum beint að því að allir séu öðruvísi á einhvern hátt og mikilvægi þess að horfa frekar á það sem fólk á sameiginlegt en það sem skilur það að. Nemendur í starfstengdu diplómunámi hafa tekið virkan þátt í Jafnréttisdögum undanfarinna ára.
Mikil gróska er í jafnréttisstarfi meðal stúdenta eins og til dæmis Femínistafélag Háskóla Íslands og Q-félag hinsegin stúdenta.
Í HÍ starfar jafnréttisfulltrúi sem hefur yfirumsjón með jafnréttismálum í samvinnu við jafnréttisnefnd og málefnum fatlaðs fólks og er formaður ráðsins. Hlutverk hans er meðal annars að vinna að stefnumótun og að fylgjast með því hvort jafnréttisáætlun skólans sé fylgt eftir. Hann sinnir fræðslu og ráðgjöf um jafnréttismál og stuðlar að því að jafnréttismál séu sjálfsagður þáttur í starfi HÍ.
Jafnréttisáætlun Háskóla Íslands var fyrst samþykkt af háskólaráði 19. október 2000. Áætlunin er byggð á lögum um jafna stöðu karla og kvenna. Í áætluninni felst viðurkenning um nauðsyn þess að grípa til sérstakra tímabundinna aðgerða og þess að raunverulegt jafnrétti og jöfn staða kvenna og karla náist. Núgildandi jafnréttisáætlun tók gildi árið 2013 og þá er það sérstaklega tekið fram að áætlunin miðar að því að allir einstaklingar fái notið réttinda sinna innan skólans án mismununar á grundvelli „kyns, kyngervis, kynvitundar, kynhneigðar, aldurs, fötlunar, heilsufars, þjóðernis, kynþáttar, litarháttar, uppruna, trúarbragða, skoðana, menningar eða stöðu að öðru leyti.“
Jafnréttisnefnd fer með umsjón jafnréttismála í HÍ og er skipuð af háskólaráðinu samkvæmt tilnefningu rektors. Nefndin á að veita ráðgjöf sem stuðlar að jafnrétti og vinna gegn mismunun innan háskólans. Í HÍ er líka ráð um málefni fatlaðs fólks sem hefur umsjón með málefnum fatlaðs fólks í skólanum og nemenda með námsörðugleika.
Háskóli Íslands hefur náð góðum árangri í sínu jafnréttisstarfi. Til dæmis var bara ein kona í fyrsta nemendahópi skólans árið 1911 en árið 2016 voru fleiri konur í nemendahópi skólans eða 66% af öllum nemendum skólans. Það eru aðeins fleiri konur sem starfa í skólanum þegar á heildina er litið en flestir kennarar eru karlar. Það er hins vegar ekki mikið um fatlað fólk í starfi hjá HÍ en á Menntavísindasviði starfa þrír karlar með þroskahömlun í hlutastarfi.
Þrátt fyrir að Háskóli Íslands leggi ríka áherslu á jafnréttismál innan skólan þá eru ekki allir sem fá tækifæri til að stunda þar nám. Í flestar deildir skólans er gerð krafa um stúdentspróf og útilokar það alla þá nemendur sem stunda nám á starfsbrautum framhaldsskólanna. Árið 2007 var hins vegar stofnuð námsleið á Menntavísindasviði skólans fyrir nemendur með þroskahömlun sem ekki hafa lokið stúdentsprófi. Um er að ræða tveggja ára nám án aðgreiningar þar sem nemendur fá þjálfun í að starfa á leikskólum, bókasöfnum, frístundaheimilum eða á vettvangi fatlaðs fólks. Fyrstu árin var þetta tilraunaverkefni en nú hefur námið náð að festa sig í sessi og njóta nemendur diplómunámsins sömu réttindi og aðrir háskólastúdentar.
Það er ekki nóg að Háskóli Íslands segist ætla að vera í fararbroddi í jafnréttismálum heldur þarf hann að gera ráðstafanir og fara eftir þeim áætlunum sem gerðar eru. Við hvetjum Háskóla Íslands til að halda áfram að vinna að jafnréttismálum . #jafnréttifyriralla