Liðveisla

Skúli Steinar Pétursson
Skúli Steinar Pétursson

Ég er sendiherra Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Hlutverk mitt er að fræða fólk um samningin og réttindi fatlaðs fólks. Ég hef mikinn áhuga á mannréttindum og að fatlað fólk fái þann stuðning sem það á rétt á í lífinu.

 

Það er mikilvægt að sá stuðningur sé eins og fólkið sjálft vill hafa hann. Samkvæmt Samningi Sameinuðu Þjóðanna á fatlað fólk rétt á þeirri aðstoð sem það þarf til þess að geta tekið fullan þátt í samfélaginu. Ég hef verið að kanna þær leiðir sem fatlað fólk hefur rétt á að nýta sér til þess að geta tekið þátt í öllu því sem samfélagið hefur upp á að bjóða.

 

Liðveisla er eitt af því. Ég hef því kynnt mér liðveislu og út á hvað hún gengur en félagsleg liðveisla er þjónusta sem allir fatlaðir eintaklingar eiga rétt á ef þeir þurfa á henni að halda og um hana er fjallað í lögum um málefnum fatlaðs fólks.

 

Ég tók viðtal við Ilmi Kristjánsdóttur Stefán Eiríksson og Sigurbjörgu Fjölnisdóttur hjá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar og komst að ýmsu um liðveislu. Það er til dæmis langur biðlisti eftir að fá liðveislu vegna þess að það vantar starfsfólk.

 

Það er því mikilvægt að fólk viti af því að Liðveisla er skemmtilegt, áhugavert og fjölbreytt starf sem felur í sér allskonar skemmtilegheit.

 

Þegar ég var yngri þá var ég með liðveislu sem var ungur maður sem var alveg frábær. Það var mjög mikilvægt fyrir mig þá að vera með liðveislu svo ég einangraðist ekki frá samfélaginu. Við gerðum margt skemmtilegt saman, eins og að fara í bíó, í keilu og út að borða.

 

Ég kynntist líka fjölskyldunni hans og eignaðist vini í gegnum hann. Í dag er ég orðinn fullorðinn og er sjálfstæður og þarf ekki lengur á því að halda að vera með liðveislu. En það er fullt af fullorðnu fötluðu fólki sem þarf aðstoð við að fara á djammið, í leikhús, út að borða og fleira og liðveisla er mjög mikilvægur þáttur í þeirra lífi.

 

Liðveisla getur komið í veg fyrir að fólk verði einmana. Það er mikilvægt fyrir alla að taka þátt í samfélaginu, fara á djammið og taka þátt í öllu því sem lífið hefur upp á að bjóða þess vegna hvet ég alla til þess að kynna sér þetta starf á heimasíðum sveitafélaganna því það gæti verið fyrir þig.

 

Skúli Steinar Pétursson

Sendiherra Samnings Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks