Í fyrsta lið 30. grein samningsins er viðurkenndur réttur fatlaðs fólks til að taka þátt í menningarlífi til jafns við aðra og að gera skuli viðeigandi ráðstafanir til þess að svo verði. Þar er til dæmis fjallað um að fatlað fólk eigi að njóta aðgengis og komast í til dæmis leikhús, söfn, kvikmyndahús, bókasöfn og á ferðamannastaði. Þrátt fyrir að svo sé þá er til dæmis hjólastólaaðgengi oft mjög slæmt á mörgum stöðum.
Ég fór til dæmis einu sinni með vinkonu minni sem notar hjólastól í Þjóðleikhúsið og þar voru allstaðar tröppur og hindranir svo við komumst lítið áfram. Þá eru líka margar hindranir í miðbæ Reykjavíkur og oft erfitt að komast um. Svo er líka oft skortur á upplýsingum til fatlaðs fólks og það veit kannski ekki um þá menningaratburði sem eru í boði, til dæmis hvað er í leikhúsinu, hvaða tónleikar eru í boði eða í kvikmyndahúsum. Þetta þarf að laga.
Það er margt í boði hvað varðar tómstundir og íþróttir fyrir fatlað fólk, til dæmis sund, boccia, borðtennis, listskautar, fótbolti, keila og margt fleira. Fatlaðir Íslendingar hafa staðið sig vel á alþjóða vettvangi og unnið til margra verðlauna. Ég hef sjálf keppt í sundi og var Norðurlandameistari árið 1985 í sundi. Það var gefandi og gaman taka þátt í því. Ég hef líka verið aðstoðarsundþjálfari hjá Öspinni sem er fyrir fötluð börn og unglinga og svo er ég líka í stjórn special olympics.
Þetta sýnir að það er ýmislegt í boði en það er oftast í sérúrræðum fyrir fatlað fólk og stundum fá fötluð börn ekki að vera með jafnöldrum sínum í tómstundum og íþróttum.
Í 5. lið 30. greinar samnings Sameinuðu þjóðanna kemur fram að það eigi að gera ráðstafanir í því skyni að gera fötluðu fólki kleift að taka til jafns við aðra þátt í tómstunda,- frístunda-, og íþróttastarfi. Þá kemur fram að hvetja þurfi og efla þátttöku fatlaðs fólks, eins og frekast er unnt, í almennu íþróttastarfi á öllum stigum. Jafnframt að tryggja fötluðum börnum aðgang, til jafns við önnur börn, til að taka þátt í leikjum og frístundastarfi meðal annars innan skólakerfisins. Það er því ekki alltaf verið að fara eftir þessum ákvæðum samningsins þó að margt sé vel gert.
Undirrituð er sendiherra samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, var Norðurlandameistari í sundi árið 1985 og vinnur sem aðstoðarsundþjálfari fyrir fötluð börn og unglinga hjá Öspinni auk þess sem hún er í stjórn Special Olympics.
Birt á vef Fréttablaðsins þann 1. 11. 18