Ágústa Erla Þorvaldsdóttir, formaður Átaks, félags fólks með þroskahömlun og varaformaður Landssamtakanna Þroskahjálpar, lést á Landspítalanum 23. ágúst síðastliðinn.
Ágústa Erla var stofnfélagi í Átaki og sat hún í fjöldamörg ár í stjórn og gengdi þar ýmsum trúnaðarstörfum. Hún hefur verið formaður Átaks frá árinu 2018 en Ágústa sat einnig í stjórn Landssamtakanna Þroskahjálpar og var kosin varaformaður samtakanna árið 2019 og var að auki í stjórn Listar án landamæra fyrir hönd Átaks.
Réttindabarátta var Ágústu mjög hugleikin og við minnumst sterkrar og jákvæðrar konu sem var ötul í hagsmunabaráttu fólks með þroskahömlun meðal annars í störfum sínum fyrir Átak og Landssamtökin Þroskahjálp. Framlag hennar til félagsins og til baráttunnar fyrir sjálfsákvörðunarrétti fólks með þroskahömlun er ómetanlegt. Hún var mjög metnaðarfull í starfinu og hvatti sérstaklega ungt fólk til að taka þátt. Hún var drífandi og fékk fleiri með sér í baráttuna enda jákvæðni hennar smitandi.
Að leiðarlokum sendum við ástvinum Ágústu innilegar samúðarkveðjur.