Áskorun til ráðherra, alþingismanna og sveitarstjórnarmanna

Undirrituð félagasamtök taka heilshugar undir hvert orð sem fram kemur í nýútkominni skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis um geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga.

 

Í skýrslunni er undirstrikuð sú alvarlega staða sem uppi er og hefur verið um langa hríð.

 

Að mati Ríkisendurskoðunar er sá langi biðtími sem hefur einkennt geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga óviðunandi.

 

Ef ekki er tekið á markvissan hátt á geðheilsuvanda barna og unglinga um leið og hans verður vart aukast til muna líkur þess að þungbærar og langvarandi afleiðingar, jafnvel örorka, komi síðar fram.

 

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir að stjórnvöld hafi ótvíræðar skyldur þegar kemur að geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga.

 

Seint verður undirstrikað mikilvægi snemmtækrar íhlutunar á grunnstigi og hver beinn fjárhagslegur ávinningur hlýst af henni.

 

Ótalin eru þá þau áhrif sem aðgerðaleysi hefur óhjákvæmilega á þann sem þjónustuna skortir og alla sem að honum standa.

 

Undirrituð skora á stjórnvöld að bregðast nú þegar við athugasemdum sem fram eru settar í skýrslu Ríkisendurskoðunar.

 

Frjáls félagasamtök hafa til fjölda ára, ítrekað vakið athygli á ástandinu og afleiðingum aðgerðaleysis.

 

Nú er lag til að láta verkin tala og treysta undirrituð því að ráðamenn sýni skilning sinn í verki.

 

Hér er hægt að skoða skjalið 

-------

ADHD samtökin,

Átak, félag fólks með þroskahömlun

Barnaheill - Save the Children á Íslandi

Einhverfusamtökin

Einstök börn

Landssamtökin Þroskahjálp

Sjónarhóll ráðgjafarmiðstöð

Umhyggja – félag til stuðnings langveikum börnum