Er allt sem sýnist?

Aileen S. Svensdóttir, formaður Átaks, félags fólks með þroskahömlun.
Aileen S. Svensdóttir, formaður Átaks, félags fólks með þroskahömlun.

Heimsókn Guðna Th.  Jóhannessonar forseta á Sólheima hefur verið í umræðunni að undanförnu.

 

Við fögnum áhuga forseta okkar allra á málefnum fatlaðs fólks og frumkvæði hans að tala máli minnihlutahópa og hlusta á þá. Það  sýndi hann líka  ásamt flestum öðrum frambjóðendum með því að mæta á fundinn okkar "frambjóðendur svara" í júní s.l.

 

Oft er fatlað fólk hópur sem hafður er til hliðar. Því ætlum við hjá Átaki, félagi fólks með þroskahömlun að fagna umræðunni og taka þátt í henni af fullum krafti.

 

Heimsókn forsetans á Sólheima gefur tilefni til að skoða nokkra hluti sem þeim tengjast og spyrja spurninga.

 

  1. Eru Sólheimar lítið samfélag þar sem 43 fatlaðir búa við sambærileg réttindi og aðrir  íbúar staðarins eða eru þeir altæk stofnun?

  2. Hafa allir íbúar í því samfélagi valið að búa þar og geta þeir flutt þaðan ef þeir vilja?

  3. Er fatlaður einstaklingur í framkvæmdastjórn eða í fulltrúaráði Sólheima?

  4. Búa allir íbúar í samfélaginu við sambærileg launa- og starfskjör?

  5. Hvert rennur andvirði þeirra mikils metinna listmuna sem þar eru framleiddir?

  6. Búa allir íbúar samfélagsins við sambærilegar reglur og almenn réttindi? 

  7. Með hvaða hætti hefur verið brugðist við athugasemdum sem komu fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar árið 2002?

 

Félagsmenn okkar sem hafa reynslu af Sólheimum hafa margvíslegar sögur að segja. Skoðanir eru líka mismunandi. Af hverju ekki að ræða við fatlað fólk sem býr eða hefur búið á Sólheimum og fá þeirra sýn á málið? Ekki bara fá sýn þeirra ófötluðu sem sjaldan sjá annað en fallegt umhverfi.

 

Takk fyrir, herra forseti Guðni Th. Jóhannesson, að vekja athygli fólks á Sólheimum sem samfélagi og nú væntum við þess að meðfylgjandi spurningar verði settar fram í fjölmiðlum og málið allt skoðað til hlýtar. Einnig væntum við þess að Ríkisendurskoðun taki málið upp aftur og kanni stöðu mála á Sólheimum og hvernig málin hafa þróast frá árinu 2002.

 

Aileen Soffía Svensdóttir, formaður Átaks.