Ína Vals og Katrín
Átak, félag fólks með þroskahömlun efnir til stjórnmálafundar í aðdraganda alþingiskosninganna 2016 og spyr frambjóðendur hvað þeir ætli að gera svo allar manneskjur, fatlaðar sem ófatlaðar, fái notið sín í samfélaginu og lifað þar með reisn.
Þetta er í fyrsta skipti sem félag fólks með þroskahömlun efnir til eigin pallborðsumræðna í beinni útsendingu í sjónvarpi hér á landi – og er verkefnið unnið í samvinnu við sjónvarpsstöðina Hringbraut og sýnt þar beint mánudagskvöldið 24. október frá klukkan 17:30 til 19:30.
Verkefnið er samstarfsverkefni Átaks, félag fólks með þroskahömlun, sjónvarpsþáttarins Með okkar augum og Sendiherra Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Fundarstjóri er sjónvarpsmaðurinn Andri Freyr Hilmarsson.
Þær Katrín Guðrún Tryggvadóttir og Ína Own Valsdóttir verða spyrlar fundarins og voru lagðar fyrir þær nokkrar spurningar um fundinn og tilgang hans.
Hverjar eruð þið?
Ég heiti Katrín Guðrún Tryggvadóttir og er ein af þáttastjórnendum úr sjónvarpsþáttunum Með okkar augum. Ég er á öðru ári í starfstengdu diplómanámi fyrir fólk með þroskahömlun í Háskóla Íslands. Ég hef æft skauta í 11 ár með Öspinni og hef keppt í þeirri íþrótt víðsvegar um heiminn. Áhugamál mín eru skautar og tölvuleikir, japanskar teiknimyndir og teiknimyndasögur.
Ég heiti Ína Owen Valsdóttir og er ein af Sendiherrunum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólk. Mitt sérsvið innan samningsins er 27. greinin sem fjallar um atvinnuþátttöku og 29. greinin sem fjallar um stjórnmálaþátttöku.
Ég útskrifaðist úr starfstengdu diplómanámi fyrir fólk með þroskahömlun sumarið 2015. Nú er ég nýkomin aftur út á vinnumarkaðinn og er að vinna á frístundaheimilunu Öskju í Klettaskóla. Ég hef æft hjá íþróttafélaginu Ösp í fjölda ára. Áhugamál mín eru sund, boccia og mér finnst líka gaman að passa börn og hitta vini.
Af hverju eruð þið að halda fundinn Frambjóðendur Svara?
Það var haldinn svona fundur með forsetaframbjóðendum í sumar sem gekk vonum framar og þess vegna vildu allir endurtaka leikinn reynslunni ríkari. Katrín: Til að við fáum að vita hvað stjórnmálaflokkarnir ætli að gera fyrir fatlað fólk eftir kosningar.
Ína Til að fólk með þroskahömlun verði sýnilegra og sjálfstæðara og hafi meira um líf sitt að segja.
Hverjir eiga að koma á fundinn?
Formenn eða aðrir fulltrúar stjórnmálaflokkanna. En við hvetjum líka alla til þess að mæta því að okkar raddir eru líka mikilvægar. Það vill of oft gleymast.
Hverju mynduð þið breyta ef þið kæmust á þing?
Katrín
Örorkubótunum og hafa allt á auðlesnu máli.
Ína
Ég myndi hafa það sem skyldu að allt yrði á auðlesnu máli á alþingi þannig að allir gætu skilið hvað fer fram þar og breyta orðalaginu, ekki nota flókin orð og orðalag. Svo myndi ég leggja áherslu á aðgengismál, til dæmis bæta aðgengið í miðbænum.
Eru þið búnar að ákveða hvað þið ætlið að kjósa?
Katrín
NEI
Ína
NEi
Munu svör stjórnmálafólksins á fundinum hafa áhrif á ykkar atkvæði?
Katrín
Já kannski mun ég finna það út eftir fundinn
Ína
Já kannski
Eruð þið tilbúnar með ákveðnar spurningar?
Katrín. Já! Við vonum bara að öllum muni líka þær. Við munum alla vega spyrja stjórnmálamennina spjörunum úr með okkar hætti eins og ég er mjög vön að gera í þáttunum.