Í tilefni alþjóðadags fatlaðs fólks 3. desember veitti Átak, félag fólks með þroskahömlun viðurkenningu sína, Frikkann, sem kenndur er við Friðrik Sigurðsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra Þroskahjálpar.
Viðurkenningin er veitt þeim einstaklingi eða hópi sem hefur lagt sig fram við að styðja við sjálfstæði fólks með þroskahömlun, stuðlað að samfélagi án aðgreiningar á öllum sviðum, stuðlað að auknum tækifærum fólks með þroskahömlun og gert því kleift að vera sínir eigin talsmenn, stuðlað að jöfnum rétti og möguleikum fólks með þroskahömlun til jafns við aðra samfélagsþegna, stuðlað að auknum sýnileika fólks með þroskahömlun og hefur stutt félagið með óeigingjörnu framlagi í þágu félagsmanna og fólks með þroskahömlun.
Nefnd á vegum Átaks sem fer yfir tilnefningar til viðurkenningarinnar og tekur ákvarðanir varðandi veitingu hennar ákvað að Halldór Gunnarsson skyldi fá Frikkann árið 2017.
Í ávarpi sínu á vel sóttri samkomu sem Átak stóð fyrir á alþjóðadegi fatlaðs fólks lýsti Snæbjörn Áki Friðriksson, formaður félagsins, hvers vegna Halldóri væri veitt þessi viðurkenning og rakti stuttlega þann mikla og margvíslega stuðning sem Halldór hefur veitt fötluðu fólki og félaginu.
Halldór hefur í störfum sínum unnið að öllum þeim atriðum sem talin er upp hér að framan og litið er til þegar ákveðið á hverjir hljóta þessa viðurkenningu.
Halldór hefur lengi barist fyrir hagsmunum fólks með þroskahömlun. Hann var trúnaðarmaður fatlaðs fólks í Reykjavík á árunum 1995 til 1997. Formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar á árunum 1999-2005 .
Halldór hefur síðustu árin verið starfsmaður réttindavaktar velferðaráðuneytisins þar sem hann hefur staðið vörð um réttindi fatlaðs fólks og hefur vakið athygli á þeim með ýsmsum hætti t.a.m. nú nýlega með því að skipuleggja og halda í samvinnu við aðra að ráðstefnu um mikilvægi þess að allir þar með talið fólk með miklar þroskaskerðingar, getið notið þess réttar að fá að taka sjálft ákvarðanir um eigið líf.
Halldór hefur ávallt sýnt starfi Átaks mikinn áhuga og verið reiðubúin til að aðstoða félagið hvort sem það hefur verið við baráttumál Átaks eða með því að sjá um píanóleik á skemmtunum félagsins.
Átak þakkar Halldóri innilega fyrrir ómetanlegan stuðning og framlag til réttinda- og hagsmunamála fatlaðs fólks á liðnum árum og hlakkar mikið til áframhaldandi samstarfs við hann í framtíðinni.
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, var á samkomunni og afhenti hann Halldóri viðurkenninguna fyrir hönd Átaks. Forsetinn sagði einnig frá því að hann hefði fallist á að verða verndari Átaks.
Snæbjörn Áki, formaður Átaks, þakkaði forsetanum kærlega þann ómetanlega stuðning og velvilja sem hann hefði sýnt Átaki og fötluðu fólki almennt. Sá stuðningur hefði birst með ýmsum hætti og nú síðast þessari ákvörðun hans um að gerast verndari félagsins.
Á samkomunni flutti Guðný Hallgrímsdóttir, prestur fatlaðs fólks, frábæra hugvekju.
Þessari vel heppnuðu og samkomu lauk svo með því að gestir þáðu góðar veitingar í boði Átaks.