Alþjóðadagur fatlaðs fólks var haldinn hátíðlegur hjá Átaki líkt og fyrri ár. Hefð er fyrir því hjá Átaki að halda Jólafund Átaks á 3.desember og var engin breyting þar á í ár.
Á fundinum var ,,Frikkinn" heiðursviðurkenning Átaks, félag fólks með þroskahömlun veittur og í ár voru það Hrefna Haraldsdóttir og Lára Björnsdóttir sem hlutu ,,Frikkann 2016".
,,Báðar hafa þær stutt við og eflt fólk með þroskahömlun í störfum sínum í gegnum árin og eru þær fyrirmynd í störfum fyrir fatlað fólk, þar sem þær báðar hafa talað fyrir því að fólk með þroskahömlun eigi að vera sínir eigin talsmenn." segir í umsögn stjórnar Átaks um tilnefninguna nefndar um Frikann.
Lára Björnsdóttir hefur á sinni starfsævi ávallt unnið að því að fólk með þroskahömlun væri virt og á það hlustað.
Lára var framkvæmdarstjóri Landsamtakanna Þroskahjálpar á árunum 1990-1994. Hennar stuðningur og Þroskahjálpar við stofnun Átaks er ómetanlegur.
Í öllum störfum Láru hefur komið fram eindreginn vilji að fólk með þroskahömlun séu fullir þátttakendur á öllum sviðum og rödd þeirra heyrist sem víðast.
Hrefna Haraldsdóttir þroskaþjálfi hefur alla sína starfsævi unnið með fólki með þroskahömlun.
Hrefna kom að starfi umræðuhópanna og stofnun Átaks á sínum tíma.
Starf Hrefnu sem ráðgjafi við fatlað fólk og fjölskyldur þeirra er einstakt og hefur fólk með þroskahömlun ávallt átt auðvelt með að fá ráðgjöf og stuðning hjá henni bæði innan og utan vinnutíma.
Hrefna hefur stutt fólk með þroskahömlun til fullrar þátttöku og í að vera sínir eigin talsmenn.
Fjölmenni var á fundinum og sá Grillvagninn um veitingar að vanda. Halldór Gunnarsson var veislustjóri og hljómsveitin Príma sá um undirleik og dansskemmtun eftir að dagskrá lauk.