AUÐLESIÐ
Áskorun samtakanna í heild sinni:
Átak - félag fólks með þroskahömlun, Tabú - feminísk fötlunarhreyfing, Landssamtökin Þroskahjálp, Öryrkjabandalag Íslands og NPA miðstöðin skora á stjórnvöld að grípa tafarlaust til aðgerða til að tryggja öryggi fatlaðra borgara í því stríði sem nú geysar í Úkraínu og koma á friði.
Fólk sem neyðist til að flýja heimili sín vegna stríðsátaka er allt í brýnni þörf fyrir stuðning og vernd. Ríkjum er skylt að veita þá vernd samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasamningum. Fatlað fólk sem býr á átakasvæðum eða neyðist til að flýja heimili sín er sérstaklega berskjaldað. Rannsóknir og reynslan sýna að fatlað fólk á mun erfiðara með að flýja og getur síður nýtt sér almenna neyðaraðstoð. Það er oftar yfirgefið og hefur þá jafnvel enga möguleika á að leita skjóls. Margir verða því viðskila við aðstandendur,sem þýðir að þau missa sinn helsta stuðning og aðstoð við grunnþarfir. Fólk tapar hjálpartækjum, hefur ekki aðgengi að nauðsynlegum hreinlætisvörum og lyfjum, og hefur ekki aðgengi að samgöngum og öðrum grunnstoðum.
Við undirrituð leggjum sérstaka áherslu á öryggi fatlaðs fólks og fjölskyldna þess í því stríði sem nú er háð í Úkraínu. Við vitum að staða þessa hóps er alvarleg. Margt fatlað fólk á erfitt með að flýja og getur ekki dvalið við landamæri dögum saman eða gengið miklar vegalengdir vegna fötlunar sinnar. Margt fatlað fólk hefur misst stuðningsþjónustu og reiðir sig því á aðstandendur sem þurfa einir að veita sólarhringsaðstoð í ólýsanlegum aðstæðum, til dæmis fast inni á baðherbergjum sólarhringum saman. Það hefur ekki aðgang að lífsnauðsynlegum lyfjum, til dæmis vegna geðsjúkdóma, sykursýki eða flogaveiki og hjálpartækjum eins og öndunarvélum.
Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem Ísland, eins og flest ríki í heiminum hefur skuldbundið sig til að virða og framfylgja, segir meðal annars:
Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir, í samræmi við skuldbindingar sínar að þjóðarétti, þar með talið alþjóðleg mannúðarlög og alþjóðleg mannréttindalög, til þess að tryggja að fatlað fólk njóti verndar og öryggis þegar hættuástand ríkir, að meðtöldum vopnuðum átökum, neyðarástandi sem kallar á mannúðaraðstoð. [1]
Íslensk stjórnvöld hafa lýst því yfir að þau hyggjast bjóða flóttafólki frá Úkraínu skjól í þeirri mannúðarkrísu sem nú ríkir í landinu. Í þeirri vinnu skorum við á íslensk stjórnvöld og flóttamannanefnd að fara sérstaklega yfir alþjóðlega samninga, þar með talið samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, lög og reglur og alla framkvæmd í málaflokknum til að tryggja að þau standi vel við allar skyldur sínar varðandi vernd og stuðning gagnvart fötluðu fólki. Samtökin hvetja til þess að sérstaklega sé gætt að vernd fyrir þá sem mest þurfa á verndinni að halda, fatlað og langveikt fólk. Þá þarf einnig að tryggja viðeigandi aðlögun svo fatlað fólk geti raunverulega nýtt sér þær stuðningsaðgerðir sem farið er í.
Við hvetjum stjórnvöld til þess að:
Átak – félag fólks með þroskahömlun, Tabú - feminísk fötlunarhreyfing, Landssamtökin Þroskahjálp og Öryrkjabandalag Íslands lýsa yfir vilja til þess að leggja til sérfræðiþekkingu og stuðning við neyðaraðstoð og/eða móttöku fatlaðs flóttafólks frá Úkraínu. Samráð við fatlað fólk og samtök þess er ein af skuldbindingum aðildarríkja samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og er það mikilvægt á sviði neyðaraðstoðar og verndar sem og öðrum.
Átak – félag fólks með þroskahömlun
Tabú – feminísk fötlunarhreyfing
Landssamtökin Þroskahjálp
NPA miðstöðin
Öryrkjabandalag Íslands
1. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, 2006.
2. Fight for Right, fötlunarsamtök í Úkraínu: https://ffr.org.ua/?fbclid=IwAR2W8pNTGvzYkFAJfVMD7bDSw_kYbof1w-WVYbR8Ww41UfN8rqZPKyIuBw. Upplýsingar frá Inclusion Europe um stöðu fólks með þroskahömlun í Úkraínu: https://www.inclusioneurope.eu/ukraine-people-with-intellectual-disabilities-mustnt-be-abandoned/.
3. IASC leiðbeiningar um þátttöku fatlaðs fólks í mannúðaraðgerðum: https://bit.ly/3HOWbH