Átak leggur áhersla á að fólk með þroskahömlun segi sjálft frá sínum upplifunum og tali sjálft fyrir sínum hagsmunum og réttindum.
Þann 11. febrúar síðastliðinn var birt viðtal í Fréttablaðinu við Margréti Elísabetu Yuka Takefusa. Hún sýndi mikið hugrekki með því að láta rödd sína heyrast og segja sögu sína af því að hafa búið á Sólheimum við skert frelsi.
Á morgun laugardaginn 4. mars verður birt annað viðtal í Fréttablaðinu við konu sem bjó á Sólheimum. Hún segir frá reynslu sinni af því að hafa búið þar í tíu ár, um jákvæðu og neikvæðu hliðar þess og líf sitt eftir Sólheima. Með greininni mun fylgja hljóðupptaka fyrir þá sem vilja hlusta.
Okkar hlutverk sem félag fólks með þroskahömlun er að birta viðtöl sem þessi og vekja athygli á því hvernig sumt fólk með þroskahömlum lifir enn við skert lífsgæði og tjáningafrelsi.
Í 21. grein Samnings sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er fjallað um tjáningar- og skoðanafrelsi og segir meðal annars:
Stjórnvöld eiga að tryggja að fatlað fólk geti nýtt sér rétt sinn til að tjá sig og skoðanir sínar. Til dæmis: til að leita eftir, taka við og miðla upplýsingum og hugmyndum, til jafns við aðra, með hjálp samskiptamiðla að eigin vali.
Markmiðið með samningnum er að stuðla að því að fatlað fólk njóti allra mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns við aðra, jafnframt því að vernda og tryggja slík réttindi og frelsi.
Við skorum á stjórnvöld að farið verði eftir samningi þessum og krefjumst þess að raddir fólks með þroskahömlun fái að njóta sín til fulls og jafns við aðrar.
Það eiga ALLIR rétt á því að hafa skoðanir og segja þær upphátt.