Í dag laugardaginn 29. október 2016 kjósum við nýtt fólk á Alþingi Íslendinga. Átak, félag fólks með þroskahömlun hefur með virkum hætti tekið þátt í aðdraganda kosninga til að minna á að fólk með þroskahömlun hefur líka skoðun og vill hafa áhrif á sitt samfélag.
Mikilvægt er að allir sem það vilja mæti á kjörstað í dag og kjósi þá sem þeir vilja kjósa. Hægt er að fá aðstoð kjörstjórna á kjörstað óski fólk eftir því. Einnig geta réttindagæslumenn veitt upplýsingar um málið.
Átak, félag fólks með þroskahömlun hélt þann 24. október fundinn með fulltrúm allra flokka sem bjóða fram.
Fundurinn var haldinn á Grand Hóteli þar sem flestir mættu til leiks til að svara spurningum svo það yrði auðveldara fyrir fólk að átta sig á umræðunni.
Var þetta í fyrsta skipti sem félag líkt og Átak efndi til eigin pallborðsumræðna í beinni útsendingu í sjónvarpi hér á landi – og var verkefnið unnið í samvinnu við sjónvarpsstöðina Hringbraut.
Átak, spurði frambjóðendur hvað þeir ætli að gera svo allar manneskjur, fatlaðar sem ófatlaðar, fái notið sín í samfélaginu og lifað þar með reisn.