Það er erfitt að vera vanfjármagnaður borgari. Það er enn erfiðara að vera vanfjármagnaður, fatlaður íbúðareigandi eins og dæmin sanna. Hvað þá borgari sem þarf næturþjónustu.
Í fréttum núna í síðustu viku var í fjölmiðlum greint frá lífssögu fatlaðrar konu sem hefur átt afar erfitt líf á forsendum kerfis sem ekki hefur viljað koma til móts við mannréttindi hennar.
Dugmikill pabbi hennar hefur haft það að leiðarljósi að samfélagið komi fram við hana eins og venjulegan borgara og að hún fái að búa í samfélagi án aðgreiningar.
Með þeim árangri að í dag er hún íbúðareigandi, bíleigandi og samfélagsþegn í sínu samfélagi. En þá kemur kerfið og býður henni betri íbúð eða dýrari í skiptum fyrir þá sem hún á.
Ekki til að spara, heldur til að hagræða í þjónustu. Auðvitað var aðstandendum gert þetta tilboð að sögn kerfisins og þeir höfnuðu þessu og því þarf að finna aðrar leiðir til að hagræða í þjónustunni.
Þetta er því allt aðstandendunum að kenna sem leyfa ekki kerfinu að hræra í lífi fatlaðs fólks og búa til nýjar stofnanir í formi samliggjandi íbúða í blokk til að hagræða.
Sex íbúðir mest ef þær eru í sama stigagangi en hátt í 10 ef þær eru í sama húsi er það sem sveitarfélög vilja til að það sé hagkvæmt að þjónusta fatlað fólk, enda tillagan frá þeim komið um hámarkið.
Hagsmunasamtök horfðu á lámarkið því rannsóknir sýna hvað fólki líður vel í sínum íbúðum. Einnig er það þekkt í samfélaginu að fólk sem það getur vill búa í sínum íbúðum án aðgreiningar frá öðrum samfélagsþegnum.
Í 19. grein samnings Sameinuðu þjóðanna er mælt fyrir um að fatlað fólk eigi rétt á því að búa í samfélagi án aðgreiningar.
Það þýðir að við megum búa hvar sem er og við meira að segja ráðum því með hverjum við búum. Við eigum til dæmis ekki að þurfa að búa með þeim sem hafa beitt okkur ofbeldi, eða fólki sem okkur líkar illa við.
Samningurinn tryggir okkur þessi réttindi sem allir aðrir borgara hafa. Þeir mega eiga sínar íbúðir. Þeir mega búa þar sem þeir vilja og líður vel. En af því að málflokkurinn sem við tilheyrum er vanfjármagnaður þá er í lagi að koma með hugmyndir um það að við flytjum á sambýli í blokk, því þá er hægt að hagræða um einhverjar milljónir.
Finnst fólki þetta réttlát?
Fyndist fólki það réttlátt ef ákveðið yrði að leggja niður samgöngur í Grafarvogi og Dagur B. Eggertsson kæmi með þá hugmynd, að fyrst við erum að byggja upp Vatnsmýrina að allir sem búa í Grafarvogi og ættu ekki bíl myndu flytja í stóra blokk þar, því þá þyrfti ekki að sinna almenningssamgöngum á þessu svæði?
Eða fyndist fólki það réttlátt ef fólk sem þarf félagslega heimaþjónstu í Breiðholti fengi tilboð um að það gæti skipt á íbúðum sínu og íbúðum í blokk nálægt þjónusumiðstöðinni því þá þyrfti sveitarfélagið ekki að reka bíla, heldur væru þá allir á sama stað og starfsfólkið líka.
Viðhorf til fatlaðs fólks
Þetta snýst allt um viðhorf, viðhorf til okkar fatlaða fólksins. Er viðhorfið það að við sem erum með fötlun eigum að fá að vera jafningjar annarra samfélagsþegna eða er í lagi að koma fram við okkur eins og við séum þriðja flokks?
Það er auðvitað ekki í lagi að telja það vera í lagi að bjóða fötluðu fólki aðra meðferð en öðrum samfélagsþegnum. Það að ætlast til að fatlað fólk sitji og standi eftir geðþótta kerfisins er rangt og andstætt Samningi sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Við hjá Átaki, félagi fólks með þroskahömlun, köllum eftir að fatlað fólk segi sögur sínar og lýsi lífi sínu þannig samfélagið heyri hvernig komið er fram við okkur. Sögur eins og hjá Halldóru Guðmundsdóttur og Margrét Elísabet Yuka Takefusa, þessar sögur þurfa að heyrast.
Sögur sem draga fram viðhorf kerfisins til okkar, kerfis sem segja að við séum vanfjármögnuð og því án mannréttinda.
Sem segja að þar sem við þurfum ákveðna þjónustu þá eigum við að fylgja ströngustu fyrrimælum sveitarfélaga um hvar, hvernig og með hverjum við búum, en ekki fara eftir vilja og velferð okkar.
Kæru samfélagsþegnar. Við biðjum ykkar að hlusta á sögur fatlaðs fólks. Líka fólksins sem margir telja að geti ekki tjáð sig. Tjáning með atferli, hegðun og fáum orðum er líka tjáning þar sem er hægt að heyra svo mikið um líf fatlaðs fólks.
Viðhorf til fatlaðs fólks þurfa að breytast þá sérstaklega hjá kerfinu og stjórnmálamönnum samtímans um allt land. Það eiga gilda sömu sjónarmið og reglur um allt land þannig allir sitji við sama borð.
Við hvetjum því til að aðilar máls eigi samtal við okkur fólk með fötlun og hætta að búa til múra og nota hugtök sem aðgreina fatlað fólk frá samfélaginu.
Fögnum fjölbreytileikanum og búum öll í samfélagi án aðgreiningar.
Aileen Soffía Svensdóttir, formaður Átaks og Snæbjörn Áki Friðriksson varaformaður