Viðhorf og fordómar

Aileen Svensdóttir, formaður Átaks
Aileen Svensdóttir, formaður Átaks
Haustið 1996, þegar ég var nítján ára gömul, hóf ég eins árs nám á  sérbraut fyrir fatlaða við lýðháskóla í Sviþjóð. Þar kynntist ég mjög góðu fólki. Við vorum stundum saman í tímum með nemum á félagsliðabraut. 
 
Ég fékk áhuga á þessu og fannst þetta vera eitthvað fyrir mig. Aðstoðarfólkið a námskeiðinu sagði líka við mig að ég yrði góð i starfi með fötluðum. Haustið 1997 hóf ég svo tveggja ára nám á félagsliðabraut við Borgarholtsskóla, og útskrifaðist 2004 eftir að hafa tekið mér hlé frá námi.
 
Ég  gerðist félagi í Átaki árið 2000 og var kjörin í stjórn sem ritari félagsins og ári síðar var eg kjörin varaformaður og gegndi þvi embætti til 2006.  Frá 2009 hef ég verið formaður Átaks. Ég sat í stjórn Landsamtakanna Þroskahjálp 2003 til 2011. Ég er starfsmaður Hagkaupa og stunda nám á framhaldsstigi i klassískum söng við Söngskóla Sigurðar Demetz. 
 
Þegar skoðað er viðhorf og fordómar í garð fatlaðs fólks finnst mér margt ekki vera í lagi. Raddir  fatlaðra hafa ekki  heyrst nóg í gegnum árin. Sem manneskja með fötlun hef ég mætt allskonar samfélagshindrunum. Ég er manneskja sem þarf ákveðinn stuðning til að vera virkur þátttakandi í samfélaginu. Engu að síður finnst mér að ég hafi með minni reynslu og mínu námi og félagsstörfum  líka margt fram að færa, sem getur gagnast samfélaginu.
 
Viðhorf eru skoðanir okkar og hugmyndir okkar um lífið og tilveruna. Viðhorf eru túlkun okkar á aðstæðum. Neikvæð viðhorf eru oft byggð á vanþekkingu og fáfræði. Með aukinni fræðslu og sýnileika getum við stuðlað að jákvæðum viðhorfum.Við erum oft hrædd við að segja okkar skoðun vegna þess að einhver annar telur sig vita hvað er okkur fyrir bestu og við lítum á okkur sem þiggjendur aðstoðarinnar.
 
Ég tel að þessi kerfishugsun stafi af því að fatlað fólk hefur ekki fengið nægileg tækifæri að segja sína skoðun í baráttunni fyrir sínum réttindum og  fyrir að vilja stjórna lífi sínu sjálft. Neikvæð viðhorf hafa líka haft áhrif á þetta. Oft er efast um að fólk með þroskahömlun geti verið sjálfstætt og það hafi skoðun á líðandi stundu. En nú eru tímar vonandi að breytastToshiki Toma segir fordóma felast i því að taka einhverja staðhæfingu og líta á hana sem sjálfgefinn sannleika án þess að hugsa hvað liggur að baki henni. Dæmi um þetta eru staðhæfingar um að fólk með þroskahömlun séu börn að eilífu og að fólk með Downs Heilkenni sé alltaf hamingjusamt.
 
Hópagreining er uppspretta fordóma.Fötluðu fólki er skipt í hópa t.d fólk með Downs, einhverfu þroskahömlun og fleira.Erum við  að tala um hópa eða manneskjur? Við erum fyrst og fremst  fólk sem að þarf aukinn stuðning til þess  að mæta hindrunum i samfélaginu, aukin stuðning til að vera við sjálf. Hvað finnst mér? Í hvernig samfélagi vil ég búa? Hef ég skoðun á því?
 
Að þora að biðja um þjónustu eða aðstoð er allt í lagi og þá sérstaklega ef það snýr að því að bæta okkar líf.Hvernig  getum við unnið gegn þessum fordómum? Ég tel að við getum gert það með aukinni þátttöku og sýnileika í samfélaginu, með því að læra af reynslu hvers annars og taka meiri ábyrgð á eigin lífi.
 
Minn draumur er að nýta reynslu mína af námi, starfi og félagsstörfum til að vera ráðgjafi í því að aðstoða fólk við að sækja sjálft rétt sinn. Að stofna eigið ráðgjafafyrirtæki með atvinnu og réttindamál fatlaðra sem sérsvið, og sýna þannig að fatlaðir geti verið ráðgjafar en ekki bara þiggjendur ráðgjafar.
 
Eigið fyrirtæki!  Mun eigið viðhorf eða fordómar annarra hindra mig?
 
Aileen Soffia Svensdóttir, félagsliði